*

föstudagur, 22. september 2017
Innlent 25. maí 2012 16:50

Litlu munar á fylgi Þóru og Ólafs Ragnars

Ólafur Ragnar Grímsson og Þóra Arnórsdóttir eru hnífjöfn í nýrri könnun MMR. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar vilja Þóru sem forseta.

Ritstjórn

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Þóra Arnórsdóttir, starfsmaður RÚV, eru hnífjöfn í nýrri skoðanakönnun MMR þar sem kannaður er stuðningur almennings við þá einstaklinga sem þegar hafa lýst yfir framboði til komandi forsetakosninga. 

Af þeim sem tóku afstöðu var nákvæmlega sami fjöldi, eða 41,2%, sem sögðust myndu kjósa Ólaf Ragnar og Þóru. Þá voru 9,7% þeirra sem tóku afstöðu sem lýstu yfir stuðningi við Ara Trausta Guðmundsson. Aðrir frambjóðendur voru nefndir af 7,9% svarenda samanlagt.

Niðurstaða könnunarinnar er nokkuð í takt við könnur sem MMR birt þann 15. maí sl., nema lítillega hefur dregið úr fylgi Þóru síðan þá. Þannig hefur fylgið við Þóru minnkað um rúm tvö prósentustig.

Þá hefur Herdís Þorgeirsdóttir bætt við sig rúmum tveimur prósentustigum og mælist nú með 3,4% fylgi.

Sem fyrr reyndist töluverður munur á afstöðu fólks eftir því hvaða stjórnmálaflokka það sagðist styðja (væri gengið til kosninga nú). Þannig voru 52,5% framsóknarmanna og 58,7% sjálfstæðismanna sem sögðust kjósa Ólaf Ragnar en 71% samfylkingarfólks og 69,6% Vinstri-grænna sagðist vilja kjósa Þóru. Þá voru 63,3% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina sem jafnframt sögðust kjósa Þóru. Á móti voru 53,3% þeirra sem sögðust andvígir ríkisstjórninni sem sögðust vilja kjósa Ólaf Ragnar.

Bæði njóta þau svipað fylgist þegar horft er til búsetu. Þóra nýtur þó lítillega meira fylgis á landsbyggðinni á meðan Ólafur Ragnar nýtur lítillega meira fylgis á höfuðborgarsvæðinu. 

Sjá könnur MMR í heild sinni.