Catherine Chambers segir skammtíma efnahagslegan ávinning af kvótasetningu grásleppuveiða ekki verða nægjanlega mikinn til að vega á móti ókostum hennar.

„Fiskveiðistjórnunarkerfið verður að geta breyst í samhengi við aðstæður greinarinnar, fólksins og efnahagslegra aðstæðna,“ segir Catherine Chambers í umsögn sem hún sendi inn í samráðsgátt stjórnvalda varðandi áform um að setja kvóta á hrognkelsaveiðar.

Í samráðsgáttinni var boðið upp á athugasemdir við skýrslu starfshóps sem fór yfir kosti og galla núverandi veiðistjórnunar á hrognkelsum. Í skýrslu starfshópsins voru nefndar hugmyndir um að veiðum á grásleppu verði stjórnað á grundvelli aflahlutdeildar, og taldi starfshópurinn að með þeim hætti mætti ná fram markvissari veiðistjórnun.

Catherine segir að kvótasetning, eins og henni er lýst í greinargerð starfshópsins, muni „leiða til þess að veiðiréttindi á hrognkelsum munu minnka í þessum sjávarbyggðum sem reiða sig á veiðarnar, bæði efnahagslega og menningarlega. Þetta mun draga úr seiglu og sveigjanleika þessara samfélaga til jákvæðrar byggðaþróunar. Skammtíma efnahagslegur ávinningur kvótasetningarinnar, fyrir einstaklinga, verður ekki nægjanlega mikill til að vega á móti þessum ókostum.“

Aðrar leiðir heppilegri
Catherine er sjávarútvegsfræðingur og mannfræðingur, fagstjóri meistaranáms í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða, og hefur í rannsóknum sínum lagt sérstaka áherslu á hrognkelsaveiðar og mikilvægi þeirra í smábátaútgerð sjómanna í dreifðum byggðum. Hún segir að ört vaxandi hópur fræðimanna stundi nú rannsóknir á nýjum leiðum til að stjórna fiskveiðum.

„Margar þessara leiða eru mun heppilegri fyrir hrognkelsisveiðar en það sem nefndin leggur til,“ segir hún og leggur meðal annars til að öll ákvarðanataka verði endurskipulögð. Skapa þurfi samtal milli sérfræðinga og rannsóknarfólks við breiðan hóp veiðiréttarhafa grásleppu, auk þess sem ræða þurfi sérstaklega útfærslu kvótakerfis verði sú leið farin.

Samtal og samráð
Hún segir ennfremur nauðsynlegt að til séu áætlanir til að endurmeta árangur stjórnunaráætlana.

„Ef þær hafa í för með sér neikvæðar aukaverkanir þarf að eiga sér stað samtal og virkt samráð milli hagsmunaaðila.“

Ýmsir fleiri hafa sent inn athugasemdir við skýrslu starfshópsins, þar á meðal Axel Helgason formaður Landssambands smábátaeigenda (LS) sem meðal annars leggur til að ákvörðunartaka um dagafjölda í grásleppuveiðum verði færð frá ráðuneyti til Hafró og LS.