Launavísitalan hafði í október hækkað um 7,2% frá október 2016 en hækkunartaktur launa á ársgrundvelli hefur verið nokkuð stöðugur í rúmlega 7% síðustu mánuði, er meðal þess sem fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans.

Kaupmáttur launa hefur haldið áfram að aukast, þó með mun minni hraða en verið hefur. Kaupmáttur launa í október var engu að síður 5,5% meiri en var í október 2016.

Launavísitala hefur hækkað mikið á síðustu árum. Hækkunin var 5,8% árið 2014, 7,2% árið 2015 og 11,4% árið 2016 en launavísitalan árið 2017 mun slaga í 7% hækkun. Þessi ár hafa heildarráðstöfunartekjur og kaupmáttur sömuleiðis hækkað mikið vegna atvinnuaukningar og lítillar verðbólgu.

Beðið eftir viðræðum við ríkið

Frekar rólegt hefur verið í kringum Karphúsið að undanförnu. Ríkisstjórnarslit leiddu t.d. til frestunar á viðræðum ríkisins og hópa innan BHM, en kjarasamningar þessara hópa sem byggðu á gerðardómi runnu út í lok ágúst. Jafnan hefur verið talið að niðurstaða þessara viðræðna og annarra myndu hafa áhrif á endurskoðun samninga á almenna markaðnum sem fer fram í febrúar.

Niðurstaða endurskoðunar í febrúar er einn stærsti óvissuþátturinn um þróun efnahagsmála á næstu misserum. Kjarasamningar voru framlengdir í febrúar sl. þrátt fyrir að margir teldu að fullar forsendur hefðu verið til þess að segja þeim upp, t.d. vegna ákvarðana Kjararáðs. Segja má að samningsaðilar hafi ákveðið að bíða í eitt ár og fylgjast með þróuninni.

Ekki varð úr verðbólgunni

Þegar núgildandi kjarasamningar voru gerðir á árinu 2015 reiknuðu flestir með að áhrif mikilla launahækkana á verðbólgu yrðu veruleg. Annað hefur komið í ljós.

Ýmsir samverkandi þættir, t.d. styrking krónunnar, lág verðbólga í helstu viðskiptalöndum og samkeppni hér innanlands hafa valdið því að atvinnulífið hefur tekið aukinn launakostnað á sig án þess að verð á vörum og þjónustu hafi hækkað á samsvarandi hátt.

Áhrif launahækkana eru auðvitað enn til staðar og í haustkönnun Gallup töldu t.d. um 60% stjórnenda launakostnað hafa haft mest áhrif til verðhækkunar á eigin afurðum.

Hlutfall launa af þjóðarkökunni hér á landi helst gjarnan í hendur við hagsveifluna. Hlutfallið lækkaði mikið milli áranna 2007 og 2009 eftir hafa verið mjög hátt árin þar á undan. Hlutfall launa hefur farið stöðugt hækkandi frá árinu 2009 og reiknað er með því að það verði 63,5% í ár, en það var að meðaltali 61% á 20 ára tímabili frá 1997 til 2016.