Drífa Sigurðardóttir hefur gengið til liðs við mannauðs- og ráðgjafarfyrirtækið Attentus. Þar mun hún einbeita sér að því að þjónusta fyrirtæki við innleiðingu á jafnlaunastaðli auk þess sem hún kemur inn í teymið „Mannauðsstjóri til leigu“. Drífa hefur mikla reynslu af jafnréttismálum, mannauðsmálum, kjara- og launamálum, verkefnastjórnun, stefnumótun og innleiðingu gæðastaðla að því er segir í fréttatilkynningu.

Drífa kemur til Attentus frá ISAVIA þar sem hún hefur starfað sem mannauðsstjóri í Reykjavík. Þar áður var Drífa starfsmannastjóri hjá Mannviti og deildarstjóri launa- og kjaraþróunar hjá Eimskip.

Á árunum 1997-2004 starfaði Drífa sem ráðgjafi hjá PricewaterhouseCoopers í mannauðsmálum, starfsþróun og fræðslu, ráðningum, launa- og kjaramálum. Drífa tók þátt í stofnun Flóru, félags mannauðsstjóra á Íslandi, og situr þar að auki í stjórn Birtu lífeyrissjóðs. Drífa lauk M.Sc. í opinberri stefnumótun frá Strathclyde University, Glasgow og BA í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Um Attentus:

Attentus veitir fyrirtækjum og stofnunum ráðgjöf um allt sem snýr að innleiðingu jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012, gerð vinnureglna, starfaflokkun og mótun stefnu og aðgerða í jafnréttismálum. Attentus kom að gerð staðalsins á sínum tíma og hefur aðstoðað fjölmörg fyrirtæki að innleiðingu fyrir jafnlaunavottun.