Danir eru nú að hrinda af stað rannsóknum á því hvort hægt sé að nota dróna til að leita að fiski fyrir fiskiskipaflotann. Markmiðið er að lækka eldsneytiskostnað skipa. Greint er frá þessu á vef TV2/Bornholm.

Rannsóknaverkefnið er styrkt af danska umhverfis- og matvælaráðuneytinu. Ráðherra þessa málaflokks, Eva Kjer Hansen, segir að fiskveiðar snúist ekki bara um kvóta heldur einnig að fiska á sem hagkvæmastan hátt. Það að senda dróna á miðin sé gott dæmi um hvernig unnt sé að nýta nýjustu tækni til að ná betri árangri og stunda umhverfisvænni veiðar.

Töluverður tími og fjármunir fara í það hjá fiskiskipum að leita að fiski, einkum fiski sem safnast í torfur. Í frétt TV/2 segir að eldsneyti sé um 40% af rekstrarkostnaði skipa. Með því að útbúa dróna með fiskileitartækjum svo bergmálsmæli og sónar, megi draga úr eldsneytiskostnaði skipanna.