Flugumferð við Heathrow flugvöll í London lá niðri um hríð síðdegis í dag eftir að sást til dróna nálægt flugvellinum. BBC hefur eftir talsmanni frá Heathrow að um varúðarráðstöfun hafi verið að ræða. Um 40 flugvélar tóku á loft síðar en áætlað var vegna drónans.

Bretar hafa verulegar áhyggjur af flugi dróna í nálægð flugvalla eftir að þúsund flug til og frá Gatwick féllu niður frá 19. til 21. desember vegna drónaflugs í grennd við flugvöllinn. Það hafði áhrif á ferðir yfir 140 þúsund manns. Forsvarsmenn Gatwick flugvallar segjast hafa varið um fimm milljónum punda, ríflega 700 milljónum króna, í öryggisráðstafanir til að reyna að koma í veg fyrir að slíkt gerist á ný.