Origo hefur keypt þann hluta starfsemi AGR Dynamics sem snýr að Microsoft Dynamics NAV, ásamt sölu og þjónustu á tengdum lausnum líkt og LS Retail verslunarlausnum, Cenium hótellausnum, Continia sérlausnum og snjall lausninni Retail Crest.

Dynamics NAV er ein útbreiddasta lausn á sviði viðskiptahugbúnaðar á Íslandi. Með tilkomu þessa öfluga hóps bætist við djúp þekking og mikil reynsla til að þjóna enn betur núverandi og nýjum viðskiptavinum Origo.

Dynamics NAV starfsemin verður hluti af viðskiptalausnum hjá Origo, auk SAP, Vigor, Kjarna, Timian innkaupakerfinu og fleiri lausnum.

„Við erum afar ánægð með að fá til liðs við okkur öflugt teymi NAV sérfræðinga sem þekktir eru fyrir gæði, snerpu og þjónustulund. Þetta mun styrkja enn frekar okkar framboð á sviði viðskiptalausna og rímar þetta vel við leiðarljós Origo um að vera þjónustuframsýn. Við sjáum mikil tækifæri í að þjóna núverandi viðskiptavinum okkar á nýjum sviðum, en með því að tengja NAV viðskiptakerfi við aðrar lausnir Origo, allt frá mannauðskerfum yfir í rekstrarþjónustu, er hægt að ná fram meira hagræði hjá viðskiptavinum en áður með heildrænni lausnum og þjónustu“ er haft eftir Ingimar Bjarna­syni, fram­kvæmda­stjóraviðskiptalausna hjá Origo, í fréttatilkynningunni.

Origo selur á sama tíma eignahlut sinn í AGR Dynamics, en Origo (áður Nýherji) var einn af upphafsfjárfestum þess fyrirtækis. „Við höfum átt góða vegferð saman með AGR Dynamics í gegnum árin og það er gaman að sjá frábæran árangur þeirra á innlendum og alþjóðlegum vettvangi á sínu sérsviði. Við höfum trú á að þessi samningur sé báðum aðilum hagstæður og reiknum með nánu samstarfi fyrirtækjanna í framhaldinu, ekki síst á sviði innkaupa og birgðastýringa“, segir Finnur Oddsson, forstjóri Origo í tilkynningunni