*

mánudagur, 23. apríl 2018
Erlent 14. nóvember 2016 14:34

Dýr mistök Newsweek að veðja á Hillary

Tímaritið Newsweek þurfti að afturkalla 125 þúsund eintök af útgáfu sem fagnaði sigri Hillary Clinton í forsetakosningunum.

Ritstjórn

Leiðandi fjölmiðlar og skoðanakannanafyrirtæki í heiminum spáðu rangt fyrir um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum á þriðjudaginn í síðustu viku.

Gekk það svo langt að Newsweek og samstarfsfyrirtæki þess sem prentar sérstök tímarit blaðsins þurfa nú að afturkalla 125 þúsund eintök af sértímarit blaðsins sem bar titilinn Madam President og sýndi mynd af Hillary Clinton á forsíðunni ásamt umfjöllun sem gerði ráð fyrir sigri hennar.

Hófu prentun áður en úrslitin voru kunn

Topix Media, samstarfsaðili Newsweek hafði undirbúið tvær útgáfur af blaðinu, en vegna skoðanakannana sem allar sýndu sigur Hillary Clinton þá hafði fjölmiðillinn hafið prentun á útgáfunni sem sýndi sigur hennar.

Gekk það svo langt að útgáfan birtist í hillum verslana á þriðjudag, en var svo afturkölluð í snarhasti. Þó náðu viðskiptavinir að kaupa 17 eintök í það minnsta, en einnig bárust um allan heim á félagsmiðlum myndir af útgáfunni. Í einu tilviki sést Hillary Clinton gefa eiginhandaráritun á eintak í Pittsburgh.

Minnir atvikið á það þegar Chicago Daily Tribune lýsti yfir sigri ríkisstjóra New York, Thomas E. Dewey yfir Harry S. Truman, að morgni 3. nóvember 1948 þó Truman hafi unnið annað kjörtímabil.

Hafa sumir stuðningsmenn Trump sagt þetta skýrt dæmi um samstarf helstu fjölmiðlasamsteypa landsins við kosningabaráttu Hillary Clinton.