Dýralæknafélag Íslands hefur sent frá sér tilkynningu þar sem það kveðst vilja taka fram að gefnu tilefni að dýravelferð og heilsa dýra og manna sé alltaf höfð að leiðarljósi þegar veittar séu undanþágur frá yfirstandandi verkfalli dýralækna sem starfi hjá ríkinu. Undanþágur séu aðeins veittar á þeim forsendum.

Segir félagið að dýralæknar sjái til þess að matvæli séu örugg til neyslu og koma í veg fyrir að sjúkdómar í dýrum smitist yfir í menn. Með eftirlitsstörfum sínum með aðbúnaði búfjár, framleiðslu sláturafurða, innflutningi dýraafurða og dýravelferð gegni dýralæknar lykilhlutverki við að tryggja heilsu dýra og manna.

„Tímabundinn skortur á tilteknum matvælum telst hins vegar hvorki ógna dýravelferð né heilsu dýra og manna. Því er slíkur skortur ekki gild ástæða til undanþágu,“ segir í tilkynningu félagsins.