Dýrara er fyrir verktaka að byggja smærri íbúðir og lítið er byggt af minni íbúðum sem henta betur fyrstu kaupendum. Íbúðirnar sem um er rætt er á stærðarbilinu 65 til 85 fermetrar. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins .

Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri byggingariðnaðar hjá Samtökum iðnaðarins, segir í samtali við blaðið að verktakar meti stöðuna þannig að markaður sé frir fólk sem vilji fara úr sérbýli í nýjar íbúðir í fjölbýli og að lóðarverð sé yfirleitt það sama.

Að mati Friðriks er þörf á fyrirgreiðslu þannig að ávinningur sé af því að byggja smærri íbúðir og að um leið hafi kaupendur efni á þeim. Tekið fram er í greininni að í einhverjum tilvikum hafi sveitarfélög miðað lóðaverð við 75 fermetra íbúð og innheimt aukagjald fyrir viðbótarfermetra.