Þegar meðalleiguverð þriggja herbergja íbúða er skoðað eftir sveitarfélögum kemur í ljós að dýrast er að leigja á Seltjarnarnesi. Þar kostar 192 þúsund krónur á mánuði að leigja 79 fermetra íbúð sem þýðir að fermetraverðið er 2.488 krónur. Þessar tölur má lesa í nýrri verðsjá Þjóðskrár Íslands sem fór í loftið í síðustu viku.

Í verðsjánni er í fyrsta skiptið hægt að skoða leiguverð. Er þá stuðst við leiguverð samkvæmt þinglýstum samningum og er hægt að velja hvaða tímabil sem sem er. Verðsjáin birtir einungis upplýsingar um verð ef þremur eða fleiri samningum hefur verið þinglýst á því tímabili sem skoðað er.

Viðskiptablaðið skoðaði leiguverð frá 1. september í fyrra og þar til 10. apríl í ár. Á þessu tímabili var næst hæsta leiguverð á fermetra í Reykjavík og af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins var lægsta fermetraverðið í Mosfellsbæ. Á höfuðborgarsvæðinu var meðalleiguverð 179 þúsund krónur fyrir 85 fermetra íbúð, sem þýðir að fermetraverðið var 2.160 krónur. Fyrir utan höfuðborgarsvæðið er verðið töluvert lægra.

Af þeim tólf sveitarfélögum, sem Viðskiptablaðið skoðaði á landsbyggðinni, kostaði að meðaltali um 126 þúsund krónur að leigja 86 fermetra íbúð og var fermetraverði 1.465 krónur.

Áhugavert er að skoða þróun leiguverðs á fermetra samanborið við sama tímabil árið á undan, þ.e. 1. september 2015 til 10. apríl 2016. Þegar það er gert kemur í ljós að leiguverð hefur hækkað mest í Garðabæ á milli ára, eða um 17%. Í Reykjavík nemur hækkunin 10%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .