Bandaríski vogunarsjóðurinn Eaton Vance hefur bætt við sig í fasteignafélaginu Reginn og á sjóðurinn nú 5,54% í félaginu. Bættir sjóðurinn við sig 9.380.238 hlutum til viðbótar við þá 76.738.727 hluti sem sjóðurinn átti áður.

Á mánudag þegar viðskiptin áttu sér stað var lokagengi bréfa félagsins 24,00 en þann dag hækkaði gengið um 1,27%. Má því áætla að kaupverð hlutanna hafi verið ríflega 225 milljónir.

Gengi bréfanna hefur eilítið lækkað síðan þá og hefur markaðsvirði hlutanna rýrnað um ríflega 4,7 milljónir síðan viðskiptin áttu sér stað. Heildarmarkaðsvirði eignarhluta sjóðsins í Reginn nemur hins vegar ríflega tveimur milljörðum króna.