Leigufélagið Heimavellir vinna nú að því að ganga frá þriggja milljarða króna láni við sjóð í stýringu Eaton Vance Management að því er Vísir greinir frá . Sjóðurinn mun janframt leggja Heimavöllum til 300 milljónir króna í nýtt hlutafé.

Heimavellir eru stærsta leigufélag landsins með um 2.000 leiguíbúðir í rekstri. Greint var frá því í síðustu viku að félagið hefði frestað skráningu sinni á markað en það stefndi á skráningu í kringum páska. Stefnt er að því að skráning fari fram í byrjun maí.

Sjóðir Eaton Vance hafa verið fyrirferðamiklir á íslenskum mörkuðum á undanförnum árum og eru meðal stærstu hluthafa í mörgum skráðum félögum.

Þetta er í annað sinn sem Eaton Vance fjármagnar leigufélag en í byrjun árs lánaði sjóðstýringarfyrirtækið Almenna leigufélaginu um fjóra milljarða króna.