Sex sjóðir á vegum bandaríska eignarstýringarfélagsins Eaton Vance Management hafa selt samtals rúma 3,5 milljón hluti í TM, og eiga nú samanlagt 4,66% hlut í félaginu. Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu til Kauphallarinnar.

TM birti í gær hálfsársuppgjör, en í því kom meðal annars fram að á öðrum ársfjórðungi hafi félagið tapað 140 milljónum. Sjóðirnir seldu hinsvegar á þriðjudag, 2 dögum fyrir birtingu uppgjörsins.

Miðað við gengi bréfanna á þriðjudag má ætla að fengist hafi rúmar 113 milljónir fyrir þau, en hlutabréf tryggingafélagsins hafa hækkað um tæp 17% síðastliðið ár, þegar leiðrétt hefur verið fyrir arðgreiðslum.