Framtakssjóðurinn Edda, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, hefur keypt fjórðungshlut í Pizza-Pizza ehf., sérleyfishafa Domino‘s Pizza International á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum ánægð með að koma inn í hluthafahóp Domino‘s á Íslandi og styðja áframhaldandi vöxt fyrirtækisins, bæði á Íslandi og í Noregi. Starfsfólk Domino‘s á Íslandi hefur náð eftirtektarverðum árangri í rekstri félagsins á undanförnum árum, bæði þegar horft er til söluaukningar, þjónustu við viðskiptavini auk þess sem það hefur staðið fyrir mjög framsæknu markaðsstarfi,“ segir Margit Robertet, framkvæmdastjóri Eddu, um kaupin.

Domino‘s á Íslandi á meirihluta í sérleyfishafa Domino‘s í Noregi en þar hafa á undanförnum mánuðum verið opnaðir þrír staðir í samstarfi við norska meðeigendur sem notið hafa mikilla vinsælda. Aðkoma Eddu verður meðal annars nýtt til að fjármagna frekari vöxt í Noregi auk þess að undirbúa opnun Domino‘s staða í Svíþjóð en félagið er einnig með sérleyfi fyrir Domino‘s í Svíþjóð.

„Eftir að nýir eigendur komu að Domino‘s á Íslandi árið 2011 hefur orðið mikill viðsnúningur í rekstri félagsins og það er í dag mjög fjárhagslega sterkt. Ætlunin er að nýta góða reynslu af rekstri Domino‘s á Íslandi við uppbyggingu Domino‘s í Noregi og það er mikill kostur að fá um leið fjárhagslega sterkan meðeiganda að félaginu til að styðja stjórnendur í þeirri vegferð,“ segir Birgir Þ. Bielvedt, stjórnarformaður Pizza-Pizza.

Aðrir eigendur Pizza-Pizza ehf. eru Birgir Þ. Bieltvedt stjórnarformaður félagsins og eiginkona hans Eygló Björk Kjartansdóttir, sem einnig situr í stjórn Pizza-Pizza ehf., Högni Sigurðsson, Birgir Ö. Birgisson framkvæmdastjóri og nokkrir aðrir lykilstjórnendur Domino‘s á Íslandi.