Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu setur spurningamerki við það hvernig Samkeppniseftirlitið lítur á hagræðingu í viðskiptalífinu. „Samkeppni í verslun er í eðli sínu alþjóðleg og verður sífellt alþjóðlegri. Við erum ekki lengur ein á þessum markaði. Það er í því ljósi sem manni verður oft hugsað til þess hvernig eftirlitið starfar hérna heima, það er fyrst og fremst að horfa á þennan agnarsmáa markað þegar það tekur ákvarðanir sínar. Ég held að eftirlitið þurfi algerlega að skipta um gír hvað varðar þessi hefðbundnu verslunarfyrirtæki. Þau hafa alltaf verið í ákveðinni erlendri samkeppni en hún er að aukast gríðarlega hratt núna.“

Andrés segir erlenda samkeppni í smásölu lengi vel hafa komið nánast einungis frá verslunum sem Íslendingar versluðu í þegar þeir fóru til útlanda. Það sé þó liðin tíð í dag. „Hraðinn á þessum breytingum er svo gífurlega mikill, það er alltaf áhyggjuefni okkar í hagsmunagæslu hvað kerfið er seint að bregðast við breyttum aðstæðum.“ Hann segir að eftirlitið taki ekki nægt tillit til þess hversu alþjóðlegur smásölumarkaður sé í raun orðinn. „Þungamiðjan í þessu er að Samkeppniseftirlitið verður að fara að horfa víðar á þetta. Eðli smásölu er að breytast. Sú aukning sem við sjáum í verslun er og verður á næstu árum fyrst og fremst í netverslun og fyrst og fremst yfir landamæri.“

Ólíkt flestum tækninýjungum síðustu áratuga segir Andrés netverslun hafa komið seint til Íslands. „Við Íslendingar vorum mun seinni en nágrannaþjóðir okkar að tileinka okkur þessi viðskipti. 2,9% af veltunni í smásölu er í netverslun á Íslandi. Í þeim löndum sem við berum okkur saman við er þetta hlutfall gjarnan 10%. Það kemur mörgum spánskt fyrir sjónir í ljósi þess að við höfum í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að tileinka okkur nýjungar hratt. Ég er nú orðinn svo gamall að ég man þegar farsímarnir komu. Þá voru nær allir strax komnir með farsíma, þegar faxið kom þá voru allir komnir með fax og svo framvegis.“

Netverslun það sem koma skal
Hann segir netverslun geta verið mun þægilegri en hefðbundin verslun. „Það er hægt að skoða þetta allt í tölvunni, ýta á einn takka og þetta er fljótlega komið heim að dyrum, jafnvel samdægurs. Þetta er mjög þægilegt. Ef þú þarft að fara í búð til að kaupa þér íþróttaskó eða eitthvað slíkt þá tekur það klukkutíma. Ef þú veist nákvæmlega hvaða skó þig vantar fyrir ræktina, og hvaða stærð, þá er miklu þægilegra að sitja við tölvuna og klára viðskiptin þar.“

Samtökin sjá því fram á að hefðbundið verslunarhúsnæði muni minnka, allar rannsóknir bendi til þess. „Lagerhúsnæði er miklu stærra atriði en venjulegt verslunarhúsnæði þegar kemur að netverslun. Í Bandaríkjunum stendur fjöldi verslunarmiðstöðva auður. Eðli Kringlunnar og Smáralindar og sambærilegra fyrirbæra muni breytast úr því að vera hefðbundinn staður sem farið er í til að versla, í að vera einhverskonar blanda af verslunarhúsnæði og upplifunarstað. Þú ferð þá þarna til að uppfylla einhverja félagsþörf, og kannski máta, skoða. Ferð svo heim og sest fyrir framan tölvuna og kaupir, nú eða tekur upp símann og kaupir á staðnum á netinu. Þetta er þróunin hérna í kringum okkur. Ótrúlega stór hópur fólks sem kaupir á netinu er búinn að fara í búð og skoða vöruna áður en hann kaupir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .