Jón Diðrik Jónsson, stjórnarformaður Skeljungs segir að ekki megi blanda saman því sem kallast gjaldfærð laun og eiginlegum mánaðarlaunum fyrrverandi forstjóra.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í vikunni námu gjaldfærð laun Valgeirs Baldurssonar fyrrverandi forstjóra Skeljungs 103 milljónum króna á árinu 2017.

„Það er eðlilegt að mönnum sé brugðið þegar slíkar fjárhæðir ber á góma,“ segir Jón Diðrik sem segir laun fráfarandi forstjóra vera í fullu samræmi við laun forstjóra annarrra fyrirtækja af svipaðri stærðargráðu.

„Laun Valgeirs voru ekki hækkuð á nokkurn hátt í tengslum við fráhvarf hans frá félaginu og uppsagnarfrestur hans var 12 mánuðir, líkt og ráðningarsamningur hans og starfskjarastefna félagsins segir til um.“

Samkvæmt ársreikningi félagsins voru laun og hlunnindi Valgeirs M. Baldurssonar, fyrrum forstjóra félagsins, 103 milljónir króna á árinu 2017.

Vilja forsvarsmenn Skeljungs koma því á framfæri að hér er ekki eingöngu um að ræða mánaðarlaun Valgeirs fyrir árið 2017, né heldur hafi verið um neins konar viðbótargreiðslur eða hækkun launa til forstjórans við starfslokin.

Umrædd fjárhæð sé það sem kallast gjaldfærð laun. Í fjárhæðinni felast laun á árinu, fram að uppsögn forstjórans, öll laun í uppsagnarfresti, óúttekið orlof, auk lokunar á þriggja ára gömlu árangurstengdu kaupaukakerfi, sem árlega hafði verið frestað útgreiðslum úr.

Ákveðinn hluti af fjárhæðinni er ógreiddur, þar sem laun fyrrum forstjóra í uppsagnarfresti skyldu greidd mánaðarlega og uppsagnarfrestur hans er ekki liðinn.

Jafnframt eigi það sama við um þá tvo framkvæmdastjóra sem létu af störfum hjá félaginu á árinu 2017.