Stjórnvöld í Dubaí hafa tekið upp á því að bjóða þegnum sínum gull ef þeim tekst að grenna sig. Þetta er átak í baráttu stjórnvalda við offitufaraldurinn í landinu. BBC segir frá málinu á vefsíðu sinni.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í átakinu geta skráð sig og stendur átakið yfir í 30 daga og fylgir Ramadan, föstumánuðinum. Átakið kallast „ Þyngd þín í gulli. "

Fyrir hvert kíló sem hverfur fær hinn heppni gramm af gulli sem er um 45 dala virði eða 5430 krónur. Fólk verður þó að léttast um tvö kíló eða meira til að sjá einhvern aur.

Þeir þrír, sem léttast mest, komast í pott og fá að draga um stærri vinning sem er gullpeningur að jafnvirði 651 þúsund krónur.

Í Dubaí og nágrannalöndum er offita vaxandi vandi sökum breyttrar neyslu og lítillar hreyfingar. Sagt var frá því á vb.is að yfirvöld í Katar hafi reynt hvað þau geta í glímunni við offituna sem er orðið eitt helsta heilbrigðisvandamál þjóðarinnar. Byggðir hafa verið íþróttaleikvangar og garðar og haldin hafa verið maraþon með veglegum verðlaunum. Einnig hafa yfirvöld boðið upp á ókeypis mælingar á blóðfitu og blóðþrýstingi.