Með tilkomu tveggja nýrra flokka inn í minnihlutaríkisstjórn Venstre undir forystu Lars Lokke Rasmussen hefur efasemdarmaður um Evrópusamrunann verið skipaður nýr utanríkisráðherra Danmerkur.

Margir erlendir fjölmiðlar hafa lýst þessu sem tákn nýrra tíma og hefur þetta verið aðalfyrirsagnarpunkturinn í fréttum um að nú séu Frjálslynda bandalagið og Íhaldsflokkurinn komnir inn í ríkisstjórn.

Áður studdu flokkarnir, ásamt danska þjóðarflokknum minnihlutastjórn Venstre, en þjóðarflokkurinn stendur enn utan ríkisstjórnarinnar þó hann styðji hana.

Flokkurinn hallur undir frjálshyggju

Formaður frjálslynda bandalagsins, Anders Samuelsen, nýskipaður utanríkisráðherra hefur lengi barist gegn nánari tengslum við Evrópusambandið.

Leiddi hann á síðasta ári baráttuna gegn því að veita Evrópusambandinu auknar heimildir í réttarfarsmálum innan Danmerkur sem kosið var um í landinu vegna þess að valdheimildir sambandsins stönguðust á við stjórnarskrá landsins.

Tókst hinum 49 ára formanni flokksins sem lýsir sér sem frjálslyndum miðjuflokki hallur undir frjálshyggju ásamt öðrum baráttumönnum að ná fram sigri í atkvæðagreiðslunni.

Vilja umbætur á ESB, SÞ og NATO

Flokkur hans hafði einnig barist gegn nánari tengslum Danmerkur við evrusvæðið. „Ég hef ekki breytt skoðunum mínum gagnvart ESB á einni nóttu,“ sagði Anders Samuellson eftir skipunina.

„Stefna ríkisstjórnarinnar er sú að við verðum áfram í kjarna ESB samvinnunnar, en á sama tíma erum við gagnrýnin á hvernig sambandið vinnur.

Við viljum umbætur á því hvernig ESB, SÞ og NATO vinna innanfrá. Það þarf að hreinsa til. Við gætum hafa fengið innblástur í því sem er að gerast annars staðar í heiminum.“

Flokkur Anders hefur nú 13 þingmenn af 179 á þingi landsins.