Líkt og Viðskiptablaðið hefur áður greint frá, þá hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og aðilar vinnumarkaðsins frá því í desember 2017 fundað reglulega í Ráðherrabústaðnum. Fundirnir hafa alls verið tíu talsins og hafa þeir verið haldnir vegna þess að um áramótin losna um 80 kjarasamningar, en mest af þeim eru samningar á almenna markaðnum. Þessir samningar eru því á milli aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA).

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, telji að ákvarðanir kjararáðs um launahækkanir kjörinna fulltrúa og annarra sem voru undir kjararáði hafi beint spjótunum að stjórnvöldum. Því sé ljóst að stjórnvöld spili stóra rullu í komandi kjaraviðræðum og kallaði Ragnar Þór eftir mótvægisaðgerðum frá stjórnvöldum vegna ákvarðana kjararáðs, til að rétta hlut stéttarfélaganna.

Vinnumarkaðurinn lykilhlekkur í stöðugleika

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að það séu ekki nýmæli að stjórnvöld taki virkan þátt í kjaraviðræðum á almenna markaðnum og bendir á að þegar horft er aftur í söguna hafi stjórnvöld mjög oft komið að samningum á almennum markaði með því að liðka til fyrir þeim.

„Ef við lítum til þeirra landa sem við berum okkur saman við, til dæmis Norðurlandanna, þá er þetta samtal stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins stöðugt í gangi. Ég vil hafa þetta samtal í gangi hvort sem það eru kjarasamningar framundan eða ekki. Öflugur vinnumarkaður er ein af þeim grunnstoðum sem þurfa að vera í lagi til þess að tryggja hér stöðugt efnahagslíf. Ég hef því horft til Norðurlandanna og þeirra fyrirmynda í þessum efnum. Við erum reglulega búin að halda fundi með aðilum vinnumarkaðarins og forsvarsmönnum sveitarfélaga frá því að við tókum við. Það er til þess að byggja upp þetta samráð þannig að það verði hluti af almennu hlutverki aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélaganna og forsvarsmanna ríkisvalds á hverjum tíma. Segja má að ríkisfjármálin séu fyrsti hlutinn af efnahagslegum og félagslegum stöðugleika, peningastefnan sé annar hlutinn og að vinnumarkaðurinn sé þá þriðji hlutinn."

Spurð um hvort ákvarðanir kjararáðs séu ein af ástæðum þess að stjórnvöld taki svona virkan þátt í viðræðunum, segir Katrín að ríkisstjórnin hafi alltaf ætlað sér á að efla samtal sitt við aðila vinnumarkaðarins og að ákvarðanir kjararáðs séu ekki tengdar þeirri áætlun.

„Það var ákvörðun okkar í ríkisstjórninni þegar við tókum við að við vildum styrkja þetta samtal og stuðla að því að sátt skapist um að hér verði einhvers konar þjóðhagsráð þar sem ekki verði bara fjallað um efnahagslegan stöðugleika, heldur líka félagslegan stöðugleika. Þar sitji við borðið aðilar vinnumarkaðarins, sveitarfélögin, ríkisvaldið og Seðlabankinn, og þannig séum við með þetta formfastara en verið hefur. Ég hef litið á þessa fundi sem hluta af þessari vinnu en auðvitað hefur kjararáð komið til umræðu. Starfshópurinn sem ég skipaði um kjararáð og fyrirkomulag launa æðstu embættismanna sprettur upp úr svona samráðsfundi. Það er, held ég, í fyrsta sinn sem aðilar vinnumarkaðarins koma að slíku samráði við fulltrúa hins opinbera um laun æðstu embættismanna. Það eru ýmis önnur mál sem við höfum haft áhuga á að ræða við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna. Þar á meðal eru húsnæðismálin og almennt utanumhald vinnumarkaðarins, t.d. hvað varðar félagsleg undirboð, mansal, keðjuábyrgð og fleira, sem ég held að við þurfum að vinna betur að. Einum af þeim hópum sem ég hef sett á laggirnar er ætlað að fara yfir launatölfræðina, þannig að aðilar séu að minnsta kosti sammála um forsendurnar sem við erum að miða við þegar launaþróun er reiknuð. Það eru því mörg verkefni sem kalla á samstarf þessara aðila."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .