Gary Cohn, einn helsti efnahagsráðgjafi Donalds Trump, Bandaríkjaforseta, hefur sagt upp störfum hjá Hvíta húsinu. New York Times greindi frá þessu í gær.

Samkvæmt frétt New York Times urðu áform Trumps um að leggja 25% toll á innflutt stál og 10% toll á innflutt ál til þess að Cohn ákvað að hætta.

Cohn, sem áður starfaði hjá Goldman Sachs fjárfestingabankanum, kom meðal annars að umfangsmiklum breytingum á bandarísku skattalögjöfinni, sem samþykkt var á Bandaríkjaþingi í desember síðastliðnum. Cohn hóf störf sem efnahagsráðgjafi fyrir ríkisstjórn Trumps þann 20. janúar 2017.

Mikil starfsmannavelta hefur verið í hvíta húsinu eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu þar vestra. Meðal þeirra sem hafa sagt upp störfum sínum eru hátt settir embættismenn og ráðgjafar. Í síðustu viku sagði Hope Hicks upp starfi sínu sem samskiptastjóri Hvíta hússins, en hún er fjórða manneskjan til að gegna þeirri stöðu í valdatíð Trumps.

Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum lækkuðu í kjölfar þess að fréttir bárust af afsögn Cohns. S&P 500 vísitalan hefur lækkað um tæplega 0,9% það sem af er degi og hefur Dow Jones vísitalan lækkað um 1,3%.