Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, leiðir starf EFTA um þessar mundir. Samskipti EFTA-ríkjanna og Bretlands voru í gær þungamiðjan á ráðherrafundi ríkjanna sem haldinn var í Genf í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu .

Þar kom meðal annars fram að ráðherrar EFTA-ríkjanna ákváðu að vinna náið saman svo að hagsmunir ríkjanna verða tryggðir við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ísland hafði einnig frumkvæði af því að boða til fundar á næstu ríkjum, þar sem að viðbrögð ríkjanna við útgöngunni verði undirbúin enn frekar.

Haft er eftir Lilju í fréttatilkynningunni að útganga Breta úr Evrópusambandinu sé bæði söguleg og flókin í framkvæmd. „Við þurfum að fylgjast mjög vandlega með þróun mála og vera viðbúin, sama hvernig Bretar ákveða að haga sinni útgöngu. Það er mikilvægt að EFTA-ríkin séu samstíga og láti ekki ólíka hagsmuni eða samkeppni sín á milli hafa áhrif á samstarfið.

Það er líka mikilvægt að EFTA standi vörð um fríverslun í heiminum, ekki síst í ljósi umræðunnar sem átti sér stað samhliða forsetakosningunum í Bandaríkjunum nýverið. Fyrir Ísland eru samskiptin og viðskiptin við Bretland eitt allra mikilvægasta utanríkismálið. Við munum leggja okkur öll fram við að gæta hagsmuna Íslands,“ er haft eftir henni.

Fríverslunarsamningar í farvatninu

Talsvert af fríverslunarsamningum er í farvatninu hjá EFTA og á fundinum var farið yfir stöðuna á þeim. Meðal annars var farið yfir stöðu fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu, en einnig var því fagnað að gerð fríverslunarsamnings við Indland væri hafnar á ný, segir í fréttatilkynningunni.

„Þá var mikil ánægja á fundinum með fyrirhugaðar fríverslunarviðræður EFTA og viðskiptabandalag Argentínu, Brasilíu, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela (kallað Mercosur) sem eiga að hefjast á næsta ári,“ er einnig tekið fram í tilkynningunni.