„Heilbrigð samkeppni hvetur fyrirtæki til dáða og stuðlar að lægra verði og betri þjónustu fyrir neytendur. Seinvirkt eftirlit, sem dregur mál svo árum skiptir og tilkynnir eftir dúk og disk að málin hafi verið látin niður falla eða séu enn til rannsóknar, vinnur hins vegar gegn hagræðingu og þróun markaða og leiðir til hærra verðs og færri starfa en ella, dregur úr nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins.“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í leiðara nýs fréttabréfs samtakanna þar sem hann fjallar um samkeppnismál.

Hann bendir jafnframt á að fólk í atvinnulífinu óttist viðbrögð Samkeppniseftirlitsins sem er að verða ríki í ríkinu, beiting samkeppnisreglna sé matskennd og þær forsendur sem settar eru í samkeppnismálum séu oft ekki ljósar fyrirfram.

„Heimildir sem Samkeppniseftirlitið hefur knúið á um að settar verði inn íslenska löggjöf, og ganga lengra en víðast hvar í Evrópu hafa orðið til þess að íslenskt atvinnulíf ber takmarkað traust til Samkeppniseftirlitsins. Í ljósi ríkra íhlutunarheimilda Samkeppniseftirlitsins er nauðsynlegt að svigrúm sé fyrir málefnalega umræðu um beitingu þeirra en vegna þessara heimilda draga margir við sig að fjalla um samkeppnismál þótt unnt væri að varpa skýrara ljósi á málsmeðferð og aðkomu yfirvalda en nú tíðkast." segir í leiðaranum.