Lárus M. K. Ólafsson, lögmaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir lítið vera að gerast í útvistun verkefna frá ríkinu til einkaaðila, þrátt fyrir ítrekaða stefnumótun hins opinbera og skýra lagaheimild.

Í grein á vefsíðu SVÞ bendir Lárus á að þvert á ábendingar og áfellisdóma Ríkisendurskoðunar hafi ríkið sýnt tregðu til að útvista verkefnum og nefnir Vinnueftirlitið sem skýrt dæmi um stjórnvald sem sinni hvort tveggja veitingu þjónustu og eftirliti.

Hafi Ríkisendurskoðun lagt til að kannað verði hvort ekki megi ná samlegð og hagræðingu með því að flytja hluta eftirlitsverkefna Vinnueftirlitsins til faggiltra skoðunarstofa enda einstaka verkefni stofnunarinnar illsamræmanleg hlutverki hins opinbera.

Á Norðurlöndunum fylgist eftirlitið með þeim sem veita þjónustuna

Þá segir í greininni að samkvæmt samanburði Ríkisendurskoðunar við skipulag vinnueftirlits og vinnuverndar í nágrannalöndunum þá annast systurstofnanir Vinnueftirlitsins allar fyrirtækjaeftirliti en faggiltar skoðunarstofur sinni hins vegar vinnuvélaeftirliti.

Auk þess sjái viðurkenndir þjónustuaðilar um námskeið og kennslu og að rannsóknir fara fram á sérstökum rannsóknarstofnunum. „Þrátt fyrir áfellisdóma í skýrslu Ríkisendurskoðunar hafa stjórnvöld ekki nýtt sér þær lagaheimildir sem til staðar eru að fela faggiltum aðilum umsjón verkefna Vinnueftirlitsins,“ segir Lárus.

„Af úttekt Ríkisendurskoðunar má því draga þá ályktun starfsemi og hlutverk Vinnueftirlitsins er á margan hátt frábrugðin því sem viðgengst á Norðurlöndum og orki verulega tvímælis er kemur að hlutverki sínu sem leiðbeinandi stjórnvald annars vegar og þjónustuveitandi hins vegar.“

Ríkisrekstur ekki markmið í sjálfu sér

Lárus segir að ríkisrekstur geti ekki verið markmið í sjálfu sér og verkefni hins opinbera eigi að fela þeim sem leysa þau með sem bestum og ódýrustum hætti. Útvistun verkefna feli í sér hagræðingu og dregur úr ýmsum kostnaði hjá ríkinu.

„Reynslan hefur sýnt okkur að einkaaðilar eru hæfir til að annast slíka þjónustu og má þar nefna sem dæmi bifreiðaskoðun, skólastarfsemi og heilbrigðisþjónustu.“