Ég kem inn sem fjárfestir en það er auðvitað þannig að þegar Guðjón hringir í mig þá svara ég og við spjöllum saman. Ég hjálpa honum eins mikið og hann vill,“ segir Jón Stephenson von Tetzchner um aðkomu sína sem fjárfestir í fyrirtækinu. OZ. Um er að  ræða sprotafyrirtæki undir stjórn Guðjóns Más Guðjónssonar sem þróar tækni fyrir stafræna dreifingu sjónvarpsefnis. Jón lét af störfum sem forstjóri Opera Software árið 2010 og hætti svo alfarið störfum innan fyrirtækisins í júní á síðasta ári. Hann á þó enn 10% hlut í Opera.

Þeir Jón, Guðjón og Magnús Ragnarsson, yfirmaður viðskiptaþróunar hjá OZ, ræddu meðal annars áhugann á að endurvekja nafnið OZ og aðkomu Jóns að fyrirtækinu í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn.


Hvernig kemur það til að þú fjárfestir í þessu verkefni?
„Ég hef séð hvað strákarnir geta gert og þeir hafa verið að gera góða hluti. Mér finnst líka tæknin passa. Við vorum að vinna með farsíma langt á undan öllum öðrum [hjá Opera] og vorum að sjá möguleika þar. Og ég sé möguleika núna í sjónvarpsdreifingu, hvernig fólk notar sjónvarp og tengingu þess við internetið,“ segir Jón en hann og Guðjón hafa þekkst um árabil.

Vonast eftir fleiri verkefnum

„Ég fylgist mjög mikið með og hef alltaf fylgst með pólitík,“ segir Jón um hversu vel hann fylgist með þróun mála hér á landi. Hann segir neikvæðni hafa verið heldur mikla en að hún hafi þó verið skiljanleg miðað við það sem á undan var gengið. „Við þurfum að halda áfram og því fyrr því betra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.