*

laugardagur, 26. maí 2018
Innlent 9. júní 2017 11:05

Eggert: Ekki vegna Costco

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, segir að kaup félagsins á öllu hlutafé í Festi, tengist ekki komu Costco til Ísland.

Pétur Gunnarsson
Eggert Þór Kristófersson hefur verið forstjóri N1 frá árinu 2015.
Aðsend mynd

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri N1, sem undirritaði fyrr í dag samkomulag vegna fyrirhugaðra kaupa N1 á öllu hlutafé í Festi, segist lítast mjög vel á fyrirhuguð kaup. „Þetta er framhald af því sem við tilkynntum í lok síðasta árs. Við ákváðum að búa til fjárfestingararm til að þróa N1 áfram. Þetta er fyrsta fjárfestingin í þeirri strategíu. Við teljum fyrirtækin tvö eiga mjög vel saman,“ segir Eggert í samtali við Viðskiptablaðið.

Spurður að því hvort að þetta sé til um marks um nýja tíma á smásölumarkaði, segir forstjórinn að svona hlutir gerist ekki á einni nóttu. „Það eru eflaust margir sem halda að þetta séu einungis viðbrögð við komu Costco. Frá okkar bæjardyrum séð snýst þetta meira um þróun á smásölumarkaði til framtíðar. Við erum ekki í samkeppni við Costco,“ segir Eggert. Til marks um breytingar á smásölumarkaði, hafa Hagar gert samkomulag um kaup á öllu hlutafé Olís. Jafnframt hefur Skeljungur fest kaup á öllu hlutafé Basko, sem á meðal annars 10-11.

Í tilkynningunni frá N1 kemur fram að heildarvirði Festis sé 37,9 milljarðar samkvæmt samkomulagi aðilanna, en kaupverðið mun ráðast af skuldastöðu Festis við afhendinguna. Gert er ráð fyrir því að EBITDA Festis verði ríflega 3,3 milljarðar á árinu. Eggert bendir á að annars vegar er N1 að taka yfir rekstur Festis og hins vegar fasteignafélagsins. „Það þarf að fara með þetta í gegnum áreiðanleikakönnun og svo verðum við að fara í gegnum Samkeppniseftirlitið. Það sem liggur fyrir er að þeir fá tæplega 25% hlut í N1. Stærstu hluthafarnir í Festi verða því stórir hjá okkur,“ segir Eggert að lokum.

Stikkorð: N1 Costco Festi kaup