Sumarið verður notað í samveru með fjölskyldunni segir Eiður Smári Guðjohnsen sem hefur undanfarin tvö ár spilað fótbolta í Belgíu og nú síðast með Club Brugge. Samningurinn hans þar rennur út í sumar og engin áform eru uppi um að framlengja hann. Mikið hefur verið fjallað um framtíð Eiðs Smára í fótboltanum. Hann segist í samtali við Eftir vinnu blað Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun ekki vera tilbúinn að leggja skóna strax á hilluna og er alveg tilbúin í ný ævintýri.

“Ég hef allt of gaman að þessu. Ég lenti í meiðslum snemma á ferlinum og aftur seint. Á þessu tímabili þurfti ég hinsvegar ekki að sleppa neinni æfingu út af meiðslum og er í líkamlega fínu standi. Þess vegna kemur sú hugsun alltaf upp að á meðan ég get spilað, á meðan ég er meiðslalaus, hef gaman að þessu og fæ borgað fyrir það sem maður elskar þá finnst mér ekki rétt að hætta. En auðvitað kemur að því einn daginn.”

Eiður Smári Guðjohnsen og Ragnhildur Sveinsdóttir
Eiður Smári Guðjohnsen og Ragnhildur Sveinsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Eiður Smári býr með Ragnhildi Sveinsdóttur og þremur sonum þeirra í Barcelona. Eiður Smári segir það ekki hafa verið auðvelt að vera lengi frá fjölskyldunni en undanfarin tvö ár hefur Eiður Smári búið í Belgíu en fjölskyldan í Barcelona.

“Það er ekki sagt til að nota sem afsökun en ég held að þegar rótleysi kom á fjölskyldulífið og ég var einn og hafði ekki sama stuðning og alltaf þá sást það inni á vellinum. Ég var ekki sá sami og náði ekki að sýna það sem ég gat.  Það sýnir sig þá hversu mikinn stuðning ég hef alltaf haft og hversu vanmetinn hann er."

Fjallað er ítarlega um fótboltaferil Eiðs Smára, framtíðina og fjölskylduna í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu á morgun.

Meðal efnis í blaðinu er:

  • Hrefna Sætran fer yfir listina við að grilla á kolagrilli.
  • Inga Lind Karlsdóttir fjölmiðlakona ræðir um lífið í Barcelona og verkefnið Biggest Loser.
  • Farið er yfir sögu og aðdraganda hjólareiðakeppninnar Tour de France.
  • Áhugaverð vínsmökkunarferð í Búrgundí hérað.
  • Guðmundur Pálsson, fjölmiðlamaður og tónlistarmaður, stefnir á tíu mánaða flakk með fjölskyldunni um Evrópu.
  • Berglind Hreiðarsdóttir kennir lesendum að gera gómsætar lakkrís- og súkkulaðibollakökur.
  • Réttu verkfærin skipta máli fyrir góða förðun segir Eygló Ólöf Birgisdóttir.
  • Víkingur Heiðar Ólafsson er listrænn stjórnandi Reykjavík Midsummer Music.