Helgi Hjörvar telur að þar sem aðilar í sjávarútvegi hafi ekki viljað taka þátt í markaðslausnum sem miða að því að auka greiðslur sjávarútvegsins hafi ríkisstjórnin verið knúin til að fara skattaleiðina. Að mati Helga á sjávarútvegurinn að greiða mikið gjald þegar afkoman er góð, rétt eins og núna. Þó sé mikilvægt að gjöldin hverfi þegar gengur illa. Þetta kom fram í Sprengisandi á Bylgunni í morgun.

Kolbeinn Árnason, nýr framkvæmdastjóri LÍÚ, tekur undir að einhver gjaldtaka megi vera í greininni og telur að gleðjast eigi yfir góðri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Þó sé óeðlilegt að leggja flatt gjald á öll fyrirtæki í greininni og þetta þurfi að endurskoða. Að mati Kolbeins þarf að skera upp tillögur, sem lagðar hafa verið fram um gjaldtöku í sjávarútvegi, alveg frá grunni aðferðafræðilega séð.

10 milljarðar gefnir eftir

Hvað varðar fyrra frumvarp telur Helgi að ef til vill hafi ekki verið um mikla aðferðafræði að ræða en aðalmálið hafi verið að eftir að veiðigjöldin voru lögð á á sínum tíma hefur afkoma í sjávarútvegi verið mjög góð og í raun hafi fjárfesting verið engin áður gjaldið var sett á. Hann lagði áherslu á að þeir 10 milljarðar sem gefnir voru eftir í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar hefðu náð yfir útgjöld í allri velferðarþjónustunni sem var skorin niður, eða alls um 5,8 milljarðar á næsta ári.