Eigendur Jivaro eiga í viðræðum við breska fjárfesta um kaup á tíu til tuttugu prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu fyrir um 250 milljónir króna. Þetta kemur fram í Markaðnum á Fréttablaðinu.

Þar kemur fram að bresku fjárfestarnir krefjist þess að höfuðstöðvar Jivaro verði fluttar til Bretlands en þróunarstarf fyrirtækisins yrði áfram hér á landi. Stefán Álfsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, vildi ekki tjá sig við Markaðinn um aðkomu bresku fjárfestanna en segir fyrirtækið hafa leitað eftir áhugasömum fjárfestum, bæði hér heima og erlendis.

Jivaro er hugbúnaðarfyrirtæki sem þróar samfélagsmiðil og hugbúnað fyrir þá sem spila póker á netinu. Er hugbúnaðinum ætlað að aðstoða notendur við að spila betur og greina andstæðingana.