Stefnir, dótturfélag Arion banka, hefur ráðið Önnu Kristjánsdóttur sem forstöðumann skuldabréfa. Hún hefur starfað við stýringu skuldabréfa frá árinu 2002, þegar hún hóf störf hjá Búnaðarbankanum Verðbréfum, forvera Stefnis.

„Við erum að stýra verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóð- um, fyrrnefndu tveir einblína á hefðbundna skuldabréfasjóði eins og ríkisskuldabréfasjóði, lausafjársjóði og svo skuldabréf útgefin af bönkum og fyrirtækjum, en fagfjárfestasjóðir geta verið af ýmsum toga,“ segir Anna.

„Okkar hlutverk er að meta hvort við viljum breyta áherslum sjóðanna, eftir því hvernig vaxta- og verðbólguhorfur eru, og þá hvort við fjárfestum frekar í verðtryggðum eða óverðtryggðum bréfum, eða lengjum eða styttum líftíma sjóðanna með undirliggjandi eignum.“

Anna segir að þau hjá Stefni hafi gert ráð fyrir 25 punkta stýrivaxtalækkun Seðlabankans í síðustu viku. „Hins vegar voru viðbrögð Seðlabankans jákvæðari en við bjuggumst við þegar þeir opnuðu á það að markaðurinn gæti vænst enn frekari vaxtalækkana,“ segir Anna sem þekkir vel til eftir 15 ára starfsferil við sjóðstýringu, og miklar sviptingar í bankageiranum.

„Í kjölfar þess að ég útskrifaðist úr viðskiptafræði í HR fór ég í sjóðstýringu skuldabréfa hjá Búnaðarbankanum, sem sameinaðist um ári seinna Kaupþingi, og varð síðan að Stefni á endanum.“ Anna á tvö börn með eiginmanni sínum, Gústaf Steingrímssyni. „Þeir eru báðir drengir, tíu ára og fjögurra ára,“ segir Anna, en hún segir manninn sinn mikinn hjólreiðaáhugamann.

„Hann er aðeins að reyna að smita mig af honum, og förum við fjölskyldan stundum saman í styttri hjólatúra, þó það bjóði ekki enn upp á að fara í lengri ferðir með þennan fjögurra ára, en þegar hann var yngri var það auðveldara þegar hann var í hjólakerrunni. Einnig höfum við farið í lengri ferðir hjónin þegar við höfum ákveðið að taka stefnumót tvö saman.“

Þó að Anna búist við því að nóg verði að gera í nýju starfi, hlakkar hún til að geta eytt meiri tíma með fjölskyldu sinni og áhugamálum. „Ég hef verið að taka mastersnámið með vinnu en ég útskrifast úr því núna í júní svo þá fer maður vonandi að eiga meiri frítíma,“ segir Anna en fyrir utan að sinna vinnu, námi og fjölskyldu stundar hún einnig blak með HK.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .