Eldur Ólafsson, framkvæmdastjóri kanadíska gullleitarfélagsins Alopex Gold sem starfrækir gullnámu á suðurodda Grænlands segir rannsóknir sumarsins á Tartoq svæðinu færa félagið nær því að koma af stað vinnslu á svæðinu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á ensku frá félaginu sem ætluð er fjárfestum vegna frekari hlutafjárútboða fyrir rannsóknir næsta sumar.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um situr félagið eitt á öllum leyfum á stóru svæði sem Eldur segir að jafnist á við bestu gullbelti Kanada og Suður Afríku þar sem mörg fyrirtæki séu um hituna.

Alopex gold heldur á gullleyfum sem kallast Nalunaq, Tartoq og Vagar og hafa rannsóknir verið undirbúnar á öllum svæðum fyrir næsta sumar segir Eldur í efni meðfylgjandi tilkynningunni. Rannsóknirnar taka tillit til þeirra gagna sem fyrir eru og kjarni rannsóknarvinnunnar verður í Nalunaq og svæðum þar í kring.

Helstu rannsóknir í Nalunaq: Staðsetja gullæð milli núverandi námugangna og þar sem gullæðin er sýnileg í bakhlið fjallsins.

  • Boraðir verða um 3000 metrar í kjarnaborun í miðju Nalunaq fjallinu sem og niðri í dalbotninum þar sem gullæðin er talin liggja.
  • Með þessum borunum leitast félagið eftir því að staðfesta og vonandi stækka rannsóknarsvæðið en samkvæmt skýrslu SRK exploration gætu verið um 1.2 milljónir únsa af gulli á þessu svæði.

Meginrannsóknir á Tartoq leyfi: Reyna að sýna frammá nægjanlegt gullmagn til mögulegrar framleiðslu.

  • Teymi jarðfræðinga er staðsett í rannsóknarstöð við Tartoq og eru að safna bergsýnum á yfirborði á svæði sem er kallað Austur “carbonate” bergið í Nuluk sem talið er að gæti verið gullríkt svæði. Vitað er af kvars æðum með gulli í berginu og gæti næsta skref í rannsóknum á þessu svæði verið boranir ef niðurstöður verða jákvæðar nú í sumar.

Meginrannsóknir á Vagar leyfi: Staðfesta tilveru kvars æða, samskonar og í Nalunaq, á 20km svæði innan Vagar og Nalunaq leyfanna.

  • Tekin gullsýni í Vagar leyfinu og þá verða helst  skoðuð svæði sem heita Ship Mountain, Nalunaq West, Nalunaq East og lake 410.
  • Sérstaklega verða skoðuð svæði þar sem þegar hafa verið tekið sýni og gefa vísbendingar um kvars æðar samskonar og er í Nalunaq námunni.

Aðrar fréttir: Við höfum keypt búnað og vinnum að því að halda við innviðum sem eru til staðar.

  • Kaup á traktorgröfu, traktór og öðrum álíka búnaði sem gerir okkur kleift að viðhalda vegum og öðrum innviðum fyrir vinnu 2017 sem og mun nýtast framtíðarverkefnum.