Á meðal þjónustu fyrirtækisins Dekura er að leiðbeina íbúðareigendum varðandi þann húsbúnað sem þarf í íbúðina, að taka myndir af íbúðinni og setja Airbnb-síðu í loftið. Fyrirtækið býður svo upp á að sjá um bókanir, móttöku, þrif og öll samskipti við gesti, auk þess sem starfsmenn fyrirtækisins eru til staðar ef eitthvað kemur upp á meðan gestir dvelja í íbúðinni. Íbúðareigendur í alhliða viðskiptum við Dekura þurfa því í raun ekkert að hugsa um þessi atriði í leigurekstrinum.

Dekura var stofnað í júlí á síðasta ári af þeim Davíð Karli Wiium og Davíð Vilmundarsyni. Í samtali við Viðskiptablaðið segir Davíð Karl að þeir hafi byrjað í þessum rekstri í kjölfar fyrirspurnar frá leigusala. „Ég er búinn að starfa á fasteignamarkaði í einhver ár og er búinn að vera viðloðandi leiguíbúðir. Við fengum fyrirspurn frá aðila sem vildi leigja íbúðina sína út í skammtímaleigu, hvort við gætum aðstoðað hann við það. Upp úr því sáum við að þessa þjónustu vantaði á markaðinn,“ segir Davíð Karl.

Nánar er rætt við Davíðana hjá Dekura í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Íslendingar geta sjálfum sér um kennt að framleiðni sé lág.
  • Áhugi á viðskiptum með afleiðum eykst til muna.
  • Stefnir í besta ár á hlutabréfamarkaði frá hruni.
  • Lítið mun fást upp í kröfur í þrotabú Baugs.
  • Eftirlitsaðilar á fjármálamörkuðum mega ekki fara í samkeppni við hvorn annan, segir stjórnarformaður EMEA.
  • Hnífjafnt er í skoðanakönnunum vegna næstu þingkosninga í Grikklandi.
  • Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Símans, er í ítarlegu viðtali í blaðinu.
  • Svipmynd af Katrínu M. Guðjónsdóttur, markaðsstjóra hjá Skeljungi.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs sem fjallar um Samfylkinguna.
  • Óðinn fjallar um stórvandræði í Kína.