Fasteignafélagið Kaldalón, sem er í rekstri hjá Kviku banka, var um síðustu áramót að mestu í eigu stærstu hluthafa Kviku banka samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins. Kaldalón á byggingarétt að um 600 íbúðum í Reykjavík, Kópavogi og Garðabæ.

Stærsti hluthafi Kaldalóns var RES ehf. með tæplega helmingshlut. Samkvæmt nýjasta ársreikningi RES, fyrir árið 2016, var það til helminga í eigu Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur, eiginkonu Sigurðar Bollasonar fjárfestis, næststærsta hluthafa Kviku, og félagsins Investar ehf, sem var í eigu hjónanna Gunnars Henrik B. Gunnarssonar og Lovísu Ólafsdóttur. Gunnar átti þar til fyrr á þessu ári stóran hlut í Kviku með Sigurði í gegnum félagið RES II.

Þá var RPF næststærsti hluthafi Kaldalóns um áramótin með 16,3% hlut en það á einnig 2% hlut í Kviku. RPF er til helminga í eigu Gunnars Sverris Harðarsonar og Þórarins Arnars Sævarssonar, eigenda RE/MAX Senter.