Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir koma til greina að láta sölu á eignarhlutum ríkisins í bönkunum gerast á löngum tíma. „Það væri hægt að gera til dæmis með því að virkja markaðinn,“ sagði Bjarni í RÚV í morgun.

„Þar með myndirðu flæða í gegnum skráningu á hlutabréfamarkað litlum eignarhlutum yfir langan tíma þannig að smám saman myndi markaðurinn taka við eignarhlutunum.“

Bjarni segist ekki hafa fundið fyrir því að mikil umræða væri um að lækka þyrfti viðmiðunarmörk eignarhlutar í fjármálafyrirtækjum undir núverandi 10% fyrir því að Fjármálaeftirlitið þyrfti að samþykkja eigendur sem hæfa.

„Síðan myndi reyna á það þegar einhver vildi komast yfir þessi viðmiðunarmörk að þá þyrfti hann að leggja sínar bækur á borðið, gera grein fyrir sér og láta reyna á það að hann væri hæfur til að taka við þeim hlut,“ segir Bjarni en hann ræddi einnig um nauðsyn þess að vita hverjir stæðu að baki kaupum að tæplega 30% eignarhlut í Arion banka.

„Ég er að sjálfsögðu ekki með aðgang að upplýsingum um það en ég tek eftir því að Fjármálaeftirlitið hefur skýrt kallað eftir því.

Mér sýndist um daginn að það hefði verið gefinn nokkurra daga frestur til þess að skila inn upplýsingum um það til Fjármálaeftirlitsins. Sömuleiðis hefur fjármálaráðherra beint fjölmörgum spurningum til Fjármálaeftirlitsins til þess að ganga úr skugga um að það verði afhentar upplýsingar um þetta.

Mér sýnist sömuleiðis að það sé í gangi ferli sem að þessir eignaraðilar hafa hrint af stað þar sem þeir sækist eftir því að fara yfir tíu prósentin. Í gegnum þetta ferli þá ætti þetta að skýrast mjög hratt, ég trúi ekki öðru.“