Í fyrirvörum Samkeppniseftirlitsins við samruna Festa og N1 hefur stofnunin mestar áhyggjur af stórum eignarhlutum lífeyrissjóðanna í félögunum og þá sameinuðu félagi, auk annarra félaga í samkeppni við fyrirtækin.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu sem segir samrunana ekki verða samþykkta nema eitthvað verði gert í umsvifamiklu eignarhaldi sjóðanna í fyrirtækjunum og víðtækum eignartengslum. Þar komi til greina að takmarka áhrif þeirra við val á stjórnarmönnum, til að mynda með takmörkun atkvæðisréttar..

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sunnudagskvöld sendi N1 frá sér tilkynningu um að kaup félagsins á Festum yrðu ekki samþykkt án skilyrða. Hefur eftirlitið áhyggjur af nokkrum hlutum í bæði þessum samruna sem og áætluðum samruna Haga og Olís á sínum tíma, sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá í lok síðasta mánaðar þarf einnig að hlýta skilyrðum eftirlitsins.

Stærsta atriðið er þó eins og áður segir að til að mynda Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er stærsti hluthafinn í hvort tveggja Högum og Skeljungi, og annar stærsti hluthafinn í N1, ásamt því að vera stór hluthafi í Festum.

Lífeyrissjóðurinn Gildi er svo stór hluthafi í Festi, næst stærsti hluthafinn í Skeljungi og Högum og sá þriðji stærsti í N1.

Aðrir þættir sem Samkeppniseftirlitið hefur áhyggjur af eru sagðir helstir:

  • Stöðu þeirra fyrirtækja sem ætla að sameinast á hvort tveggja dagvöru-, sem og matvörumörkuðum, m.a. vegna innkomu Costco á markaðina
  • Áhrifum samruna á birgðahald og dreifingu á eldsneytismarkaði
  • Áhrif á staðsetningu lóða fyrir dagvöruverslana og eldsneytisstöðvar fyrirtækjanna til framtíðar