*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 19. ágúst 2016 08:36

Eignasala Landsbankans skoðuð

Ríkisendurskoðun skoðar alla eignasölu Landsbankans á árunum 2010-16 að beiðni þingmanna, bankans sjálfs og Bankasýslunnar.

Ritstjórn
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans
Haraldur Guðjónsson

Rannsökuð verður öll eignasala Landsbankans á árunum 2010 til 2016 í úttekt sem Ríkisendurskoðun hyggst gera að beiðni einstakra þingmanna, Landsbankans sjálfs og Bankasýslu ríkisins. Þetta kemur fram í DV í dag.

Mikil umræða hefur verið um eignasölu bankans á 31,2% hlut Borgun sem seldur var án fyrirvara um væntanlegar greiðslur frá Visa Inc vegna yfirtöku þess á Visa Europe.

Ekki óeðlilegt

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans segist í samtali við DV ekki eiga von á öðru en niðurstaða Ríkisendurskoðunar verði sú að alltaf hafi verið farið eftir reglum og verkferlum bankans.

Þó sé ekki óeðlilegt að svona skoðun fari fram, meðal annars vegna umræðu um eignasölu bankans.

Málaferli

Í síðustu viku ákvað bankaráð bankans að höfða mál þar sem meðlimir þess telja að bankinn hafi farið á mis við fjármuni í viðskiptunum, þó ekki sé búið að ákveða hverjum verður stefnt.

Einnig verður eignasalan á 38,6% hlut í Valitor, þar sem fyrirvarinn var gerður, sem og sala bankans á eignaumsýslufélaginu Vestia, 75% hlut í Regin og 28% hluti í Framtakssjóði Íslands skoðuð.