Sjóðastýringarfyrirtækið Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, hagnaðist um 1,1 milljarð króna á síðasta ári samanborið við 701,9 milljónir árið áður. Eignir í stýringu hjá félaginu námu 162 milljörðum í lok árs og lækkuðu um 12% milli ára. Þetta kemur fram í ársreikningi Landsbréfa.

Hreinar rekstrartekjur námu 2,3 milljörðum og jukust um 32,5% milli ára. Skýrist aukningin fyrst og fremst af árangurstengdum þóknunum af rekstri framtakssjóðs í rekstri Landsbréfa, en umsýsluþóknanir og aðrar árangurstengdar þóknanir námu 2,2 milljörðum.

Rekstrargjöld námu 868,8 milljónum og jukust um 2% milli ára. Launakostnaður nam tæplega 444 milljónum og jókst um 8% milli ára, en ársverk voru 17 á árinu.

Eigið fé Landsbréfa í lok árs 2017 nam tæplega 3,8 milljörðum króna. Alls voru um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í sjóðum Landsbréfa, sem skiptast í skuldabréfasjóði, hlutabréfasjóði, blandaða sjóði og fagfjárfestasjóði.

Stjórn Landsbréfa mun leggja til á aðalfundi félagsins að greiddur verði arður að fjárhæð 600 milljónir króna. Framkvæmdastjóri Landsbréfa er Helgi Þór Arason.