Íslandshótel, eitt stærsta hótelfyrirtæki landsins, hagnaðist um 613 milljónir króna í fyrra. Það er 11% meiri hagnaður en árið á undan. Tekjur samstæðunnar námu 6,7 milljörðum og jukust um þriðjung frá árinu 2014.

Íslandshótel reka 15 hótel um land allt og hefur samstæðan stækkað mikið undanfarin misseri. Á meðal þeirra eininga sem bættust við á síðasta ári er stærsta hótel landsins, Fosshótel Reykjavík á Höfðatorgi.

Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður Íslandshótela, segir að áætlað sé að velta Íslandshótela í ár verði 9,4 milljarðar króna. Það jafngildir 40% vexti í tekjum sem er enn meiri vöxtur en varð í fyrra. Ef áætlunin gengur eftir munu tekjur Íslandshótela vera um 80% meiri í ár heldur en árið 2014.

Eignir færðar upp um 77%

Sérstakt endurmat var framkvæmt á fasteignum Íslandshótela í fyrra og var niðurstaða matsins að verulegur munur væri á bókfærðu og raunverulegu virði eigna félagsins. Fasteignir og lóðir Íslandshótela voru færðar upp um 4,9 milljarða króna eða sem nemur 77% af virði þeirra í byrjun síðasta árs.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .