Í dag var birtur árshlutareikningur Kaupþings hf. fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2015. Árshlutareikningurinn er endurskoðaður af Ernst & Young ehf.

Bókfært virði eigna Kaupþings nam 837,7 milljörðum króna og jókst um 37,9 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins. Handbært fé Kaupþings jókst um 7 milljarða og stóð í 408,8 milljörðum króna í lok júní 2015. Kröfur á hendur Kaupþingi námu 2.806,3 milljörðum króna og lækkuðu um 19,3 milljarða á tímabilinu.

Hrein virðisbreyting eigna nam rúmum 44 milljörðum.

Bókfært virði eigna Kaupþings í lok júní 2015 nam 837,7 milljörðum króna og jókst um 37,9 milljarða eða um 4,7% á fyrri helmingi ársins.

Mælt í evrum jókst verðmæti eignasafnsins um 507 milljónir eða um 9,8%. Hrein virðisbreyting eigna var jákvæð á tímabilinu og nam 44,4 milljörðum króna. Til viðbótar bókfærðum eignum voru í lok tímabilsins, 19,7 milljarðar króna geymdir á vörslureikning til að mæta umdeildum seint framkomnum forgangskröfum samanborið við 19,2 milljarða í lok árs 2014.

Handbært fé Kaupþings stóð í 408,8 milljörðum króna við lok tímabilsins og jókst um 7 milljarða eða um 1,8%. Mælt í evrum, hækkaði handbært fé um 174 milljónir eða um 6,7%. Af 837,7 milljarða króna heildareignum, eru eignir í erlendum gjaldmiðlum metnar á 663,8 milljarða króna en eignir í íslenskum krónum eru metnar á 173,9 milljarða.

Kröfur á hendur Kaupþingi lækka um rúmlega 19 milljarða

Heildarfjárhæð samþykktra og umþrættra krafna í kröfuskrá nam 2.806,3 milljörðum króna í lok júní og lækkaði um 19,3 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins og skýrist lækkunin að mestu leyti að úrlausn ágreiningsmála. Rekstrarkostnaður Kaupþings á fyrri helming ársins nam 2,8 milljörðum króna samanborið við 2,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.

Rúmlega helmingur rekstrarkostnaðarins, eða um 1,5 milljarður króna er vegna aðkeyptrar erlendrar sérfræðiráðgjafar. Rekstrarkostnaður Kaupþings á ársgrundvelli nam 0,7% af bókfærðu virði eigna og er hlutfallið óbreytt frá fyrra ári. Til viðbótar rekstrarkostnaði er gjaldfærður virðisaukaskattur vegna fyrri tímabila samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra að fjárhæð 1,7 milljarður.