Fjármálaeftirlitið birti nýlega samantekt yfir stöðu íslenskra lífeyrissjóða við árslok 2015. Samkvæmt samantektinni voru eignir lífeyriskerfisins alls um 3.454 milljarðar króna við árslok 2015. Eignirnar hafa þar með aukist um 2% milli ára. Eignir samtryggingadeilda lífeyrissjóða jukust um nær 11% og voru 2.955 milljarðar króna við lok sama árs.

Séreignasparnaðurinn skilar 499 milljörðum til vörsluaðila

Á íslandi eru starfandi 26 lífeyrissjóðir í 76 deildum samtryggingar og séreignar. Aðrir vörsluaðilar séreignasparnaðar voru sjö talsins. Samt sem áður er staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga sú að þeir eru með umtalsverðan halla.

Séreignasparnaðurinn hefur skilað um 321 milljarði króna inn í lífeyrissjóðina og um 178 milljörðum króna til annara vörsluaðila. Aukning frá fyrra ári nemur um 14% hjá lífeyrissjóðunum, en 11% hjá hinum vörsluaðilunum.

Þrír stærstu lífeyrissjóðirnir eiga um helming allra eigna

Í samantektinni kemur fram að þrír stærstu lífeyrissjóðirnir eigi um helming eigna allra lífeyrissjóðanna. Um er að ræða Lífeyrissjóð verslunarmanna, lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóð. Hrein eign þeirra nam við árslok 2015 1.622 milljörðum króna.

Umræddir sjóðir eru með ríflega 400 milljarða króna í vörslu hver um sig. Næstu átta sjóðir, eiga eignir á bilinu 100 til 200 milljarða króna. Alls eru 15 sjóðir með minna en 100 milljarða í vörslu og telur FME að sjóðirnir munu renna saman á næstu árum, til þess að koma til móts við auknar kröfur um hagkvæmni í rekstri.

Þrjár af hverjum fjórum krónum í innlendum fjármálaafurðum

Verðbréfaeignir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga sem hlutfall af heildareignum lækkuðu á síðasta ári og voru 38% við árslok. Eignir í erlendri mynt námu um 23% af heildareignum. Um 35% eigna eru bundin í hlutabréfum, sem er nærri 3% aukning frá fyrra ári. Samkvæmt þessum upplýsingum má áætla að þrjár af hverjum fjórum krónum í eignasafni lífeyrissjóðanna séu í fjármálaafurðum útgefnum af innlendum aðilum.

Hlutfallið telst afar hátt, þegar íslenska lífeyriskerfið er borið saman við erlend lífeyriskerfi. Lífeyrissjóðirnir hafa hingað til ekki verið að fullnýta heimildir sínar til fjárfestinga erlendis, enda teljast markaðir erlendis afar hátt verðlagðir. Með frekari slökun á lögum um fjármagnshöft, er þó líklegt að lífeyrissjóðirnir sæki út fyrir landsteinana á næstu árum, til þess að dreifa áhættu.

Hrein raunávöxtun um 8%

Samkvæmt samantektinni var hrein raunávöxtun samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna á liðnu ári 8%. Árlegt vegið meðaltal raunávöxtunar sl. 25 var 4,6%, sem er vel yfir ávöxtunarviðmiði lífeyrissjóðanna sem er 3,5%. Árleg raunávöxtun síðastliðinna 10 ára var aftur á móti einungis 1,8%, en síðastliðinna 5 ára 6,2%.

Samhliða launahækkunum og hærra atvinnustigi hafa iðgjaldagreiðslur aukist, ásamt aukaframlögum um nær 14% og nemur sú upphæð 162 milljörðum króna. Útgreiðslur vegna lífeyris námu 112 milljörðum króna árið 2015 og jukust þar með um 9% milli ára.

Þörf fyrir auknum framlögum ábyrgðaraðila

Heildar tryggingafræðileg staða sjóða sem ekki njóta ábyrgðar launagreiðenda var að jafnaði jákvæð sem nemur 3%. Vegna hækkandi lífaldurs munu skuldbindingar samtryggingadeilda lífeyrissjóðanna aukast og tryggingafræðileg staða versna af þeim sökum ef ekki verður gripið til mótvægisaðgerða.

Tryggingafræðileg staða sjóða með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er sem fyrr neikvæð og var heildarstaðan með áföllnum skuldbindingum og framtíðarskuldbindingum neikvæð um 38% í árslok 2015. Ljóst er að þörfin fyrir aukaframlögum ábyrgðaraðila fer vaxandi á næstu árum og þá sérstaklega hjá lífeyrissjóðum starfmanna ríkisins.