Hrein eign lífeyrissjóða nam 2.182 milljörðum króna í lok febrúar 2012 og hafði þá hækkað um 49,4 milljarða króna frá lokum janúar eða 2,3%.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans.

Þar kemur fram að útlán og verðbréfaeign hækkuðu um 46,4 milljarða króna á milli mánaða. Þar af hækkaði innlend verðbréfaeign um 24 milljarða og nam því um 1.566 milljörðum króna í lok febrúar.

Erlend verðbréfaeign hækkaði um 22 milljarða eða 4,6% á milli mánaða og nam því um 514 milljörðum króna í lok febrúar. Þá hækkuðu innlán lífeyrissjóða um 4,7 milljarða króna og námu 157 milljörðum í lok febrúar.