Hagnaður Hótels Geysis við Geysissvæðið í Haukadal lækkaði eilítið á milli ára, úr 108,3 milljónum króna árið 2016 í 105,9 milljónir á síðasta ári.

Tekjurnar jukust þó um 54,3 milljónir eða um 8% á milli ára og námu 731,4 milljónum í fyrra. Rekstrargjöldin jukust á sama tíma um nokkurn vegin sömu upphæð eða 54,7 milljónir, eða 11,5% og námu þau í heildina 529,3 milljónum. Mismunurinn hvort ár var rétt yfir 202 milljónum króna.

Ein stærsta breytingin hjá félaginu var hækkun á verðmæti fasteigna félagsins eða úr 713,5 milljónum í 904,2 milljónir. Skuldabréfaeign félagsins lækkaði sömuleiðis á milli ára úr 50 milljónum í tæpar 20 milljónir. Eignir félagsins hækkuðu samtals úr 925 milljónum í tæplega 1,1 milljarð. Sigríður Vilhjálmsdóttir er framkvæmdastjóri og eigandi félagsins.