Heimurinn virðist vera á erfiðum stað. Bandaríkin og Kína eru á barmi viðskiptastríðs eftir að Donald J. Trump Bandaríkjaforseti lagði verndartolla á ál og stál sem flutt er frá Kína til Bandaríkjanna. Kínversk stjórnvöld svöruðu í sömu mynt og hækkuðu tolla á vörur frá ríkjum Bandaríkjanna þar sem forsetinn nýtur mikils stuðnings, til að mynda á svínakjöt sem mikið er framleitt af í Iowa. Samskipti Vesturlanda og Rússlands virðast verri en frá dögum kalda stríðsins og taugaeitursárásin á rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal og dóttur hans í Salisbury er „kornið sem fyllti mælinn“ hjá Vesturlöndum, en allt bendir til að eitrið komi frá Rússlandi. Stríðið í Sýrlandi hefur geisað í á áttunda ár, mun lengur en síðari heimsstyrjöldin, og hrakið milljónir frá heimilum sínum. Í öllu þessu róti er óumflýjanlegt að velta fyrir sér hver staða örríkis eins og Íslands er í hinum stóra heimi.

„Viðskiptastríð eru aldrei góð,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Hann hefur gegnt því embætti í tveimur ríkisstjórnum frá ársbyrjun 2017. „Hugsunin hjá Bandaríkjunum frá seinna stríði hefur verið að búa til alþjóðaviðskiptakerfi. Síðan hefur orðið mikið hikst á því. Þess vegna hefur fjöldi svæðisbundinna fríverslunarsamninga aukist,“ segir Guðlaugur Þór. „Grunnur deilna Bandaríkjanna og Kína er að þegar menn bjuggu til þetta alþjóðaviðskiptakerfi þá gerðu menn ekki ráð fyrir í því módeli að ríki gætu verið hvort tveggja í senn þróunarríki og öflugustu efnahagsveldi heimsins eins og Kína og Indland,“ segir Guðlaugur Þór og heldur áfram:

„Þróunarríkin eru með sérstaka stöðu í kerfinu. Á meðan þau fá svigrúm til að byggja sig upp eru ekki gerðar sömu kröfur til þeirra og annarra ríkja,“ segir Guðlaugur Þór. Hann segir Kína hafa verið gagnrýnt, meðal annars fyrir ógagnsæi í sínu viðskiptaumhverfi, niðurgreiðslur af hálfu ríkisins og ýmislegt annað. „Það má alveg færa rök fyrir því að Alþjóðaviðskiptastofnunin (e.WTO) hafi ekki haft tæki og tól til að taka á þeim deilum sem hafa orðið. Síðan hefur ekki orðið stór áfangi í fríverslun í kjölfar Úrúgvæ-lotunnar,“ lotu sem stóð yfir frá 1986 til 1994. „Þótt núverandi Bandaríkjaforseti sé um margt ólíkur öðrum forsetum, þá þarf ekki að koma á óvart að menn séu ósáttir enda eru þetta aðgerðir sem eru mjög alvarlegar og geta haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér ef menn finna ekki lausn fljótt.“

Ég held að það sé farið mjög varlega í sakirnar að segja að Bandaríkjaforseti sé ólíkur fyrirrennurum hans. Hefur það einhvern veginn breytt sambandi Íslands og Bandaríkjanna?

„Nei, enn sem komið er hefur það ekki verið. Það snýr ekki bara að Íslandi því auðvitað er það þannig að Bandaríkjaforseti kemur úr allt öðru umhverfi en þeir sem á undan komu og brýtur í rauninni allar óskrifaðar reglur um hvernig menn hafa orðið forsetar,“ segir Guðlaugur Þór. „Víða um hinn vestræna heim er mikil þreyta og vantraust gagnvart pólitísku elítunni. En samstarf Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda snýr ekki bara að forsetanum. Það er miklu dýpra – sem betur fer. Í öllum löndum sem við eigum samskipti við er allrahanda fólk kosið í embætti. Þótt við séum í góðum samskiptum við nánustu bandalagsríki þá segir það ekkert um skoðanir stjórnvalda á Íslandi á hverjum tíma um stjórnvöld í öðrum löndum. Samskiptin byggja á miklu meiri dýpt en einstaka kosningum,“ segir Guðlaugur Þór.

Standi saman um grunngildin

„Það er mín skoðun að það hefur sjaldan verið mikilvægara að þær þjóðir sem hafa sömu grunngildi, sem okkur finnast sjálfsögð en minnihluti jarðarbúa býr við: mannréttindi, réttarríkið og lýðræði, standi saman. Þrátt fyrir að það sé mjög ánægjulegt að sjá stórar millistéttir verða til annarsstaðar í heiminum – millistéttin í Kína er til dæmis orðin fjölmennari en öll Norður-Ameríka – þá mega menn ekki missa sjónar á stóru myndinni sem er að við trúum á þessi gildi, viljum berjast fyrir þeim og þurfum að standa saman til að þau nái fótfestu á fleiri stöðum í heiminum.“

Í því samhengi bendir hann á að okkur steðji ýmsar ógnir. Þannig búi NorðurKórea yfir tífalt öflugri kjarnorkuvopnum en þeim sem var beitt gegn Japan undir lok síðari heimsstyrjaldar. „Við vitum að Kim Jong-un getur sent þessar sprengjur langt. Við vitum bara ekki hversu langt. Við sjáum sömuleiðis framferði Rússa. Það sem gerðist núna var bara kornið sem fyllti mælinn,“ segir Guðlaugur Þór og á þar við taugaeitursárásina á Sergei Skripal í Salisbury á Englandi.

„Þetta er mynstur og eitthvað sem hefur verið í gangi mjög lengi.“ Rússar hafi þannig verið iðnir við að endurnýja herafla sinn, aðallega kjarnorkuheraflann. Af því þú nefnir Rússland, er að þínu mati lengra núna milli Vesturlanda og Rússlands en verið hefur, jafnvel frá lokum kalda stríðsins? „Það kom mér á óvart þegar ég settist í stól utanríkisráðherra og fór á fyrsta fund minn hjá NATO að heyra frá fyrstu hendi frá þeim ríkjum sem eru í nánustum samskiptum við Rússa og næst Rússlandi: Eystrasaltsríkjunum og Póllandi, auk Svíþjóðar og Finnlands sem eru nánustu samstarfsríki NATO. Um daginn var hér á landi æðsti yfirmaður eistneska hersins sem sagði við íslenska fjölmiðla að rússneskum skriðdrekum á landamærum landanna hafi verið fjölgað í rúmlega þrjú hundruð og hermönnum fjölgað úr 40.000 í rúmlega 70.000,“ segir Guðlaugur Þór.

„Í Litháen er búið að dreifa bæklingum í hvert einasta hús til að búa almenning um hvað fólk eigi að gera ef til stríðs kemur. Þetta er raunveruleikinn í dag. Þar eins og annarsstaðar þegar kemur að viðskiptum eigum við allt undir alþjóðalögum. Öll þau réttindi sem við höfum fengið sem þjóð höfum við fengið gegnum alþjóðalög sem menn virða. Þess vegna er mjög alvarlegt mál þegar Rússar brjóta alþjóðalög með þeim hætti sem þeir gerðu við innlimun Krímskagans,“ segir Guðlaugur Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .