Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,05% í 1,9 milljarða viðskiptum í dag og fór hún upp í 1.763,94 stig. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði hins vegar nokkru meira eða um 0,33% í 1,7 milljarða viðskiptum og fór hún upp í 1.366,01 stig.

Mest lækkun var á gengi bréfa Eikar fasteignafélags, eða um 1,09% í þó litlum viðskiptum, eða fyrir tæpar 9 milljónir króna. Fór gengi bréfanna niður í 9,99 krónur.

Næst mest var svo lækkun bréfa Regins, eða um 0,95% í 81 milljón króna viðskiptum, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær hagnaðist það um 3,7 milljarða króna á síðasta ári sem er lækkun frá fyrra ári þrátt fyrir auknar rekstrartekjur. Lokagengi bréfanna nam 25,95 krónum.

Mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða 716 milljónir króna, en gengi bréfanna stóð í stað, í 364,50 krónum.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Icelandair, sem jafnframt hækkuðu mest, eða um 708 milljónir króna. Nam hækkunin 1,61% og fóru bréfin upp í 15,80 krónur. Næst mest hækkun var á bréfum Haga, sem hækkuðu um 0,98% í 182 milljón króna viðskiptum og nam lokagengi bréfanna 41,30 krónum.