Eimskip hefur gert breytingar á siglingakerfi félagsins. Markmiðið er sagt vera að stytta afhendingartíma á ferskum og frosnum afurðum á markaði í Evrópu.

Aðgerðin er liður í breytingum hjá félaginu sem sagði upp átján manns í síðustu viku líkt og Vísir greindi frá. Eimskip sendi frá sér afkomuviðvörun fyrir tveimur vikum þar sem kom fram að EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) verði um 8-10% lægri en fyrir ári þegar EBITDA nam 19,3 milljónum evra.

Helstu breytingar á siglingakerfinu verða á bláu og rauðu línum félagsins. Breytingarnar á bláu línunni eru þær að Goðafoss og Dettifoss munu sigla frá Reykjavík beint til Rotterdam á fimmtudögum og vera þar á sunnudögum. Þau munu því hætta viðkomum á Reyðarfirði og Þórshöfn í Færeyjum á leið sinni til Evrópu. Á leið sinni aftur til Íslands mun bláa línan koma við í Bremerhaven, Helsingborg, Árósum og Þórshöfn í Færeyjum. Fyrsta ferð skipanna samkvæmt þessari áætlun verður 15. nóvember nk.

Breytingarnar á rauðu línunni eru þær að Perseus og Pollux munu sigla frá Reyðarfirði á fimmtudagskvöldum til Þórshafnar í Færeyjum og þaðan til Árósa þar sem þau verða á mánudögum. Rauða línan mun tengjast gulu línunni í Færeyjum sem gefur möguleika á flutningi inn á Bretland og meginland Evrópu. Rauða línan mun áfram koma við í Swinoujscie í Póllandi og Fredrikstad í Noregi hálfsmánaðarlega. Brottför frá Reykjavík er í hádegi á miðvikudögum og er fyrsta ferð samkvæmt þessari áætlun frá Reykjavík 14. nóvember nk.

Þessar breytingar hafa í för með sér bættan afhendingartíma innflutningsvöru frá Póllandi og Skandinavíu en öll skip félagsins frá Evrópu munu nú losa í Reykjavík á mánudögum og þriðjudögum. Þá eru frekari breytingar á leiðarkerfiu til skoðunar

Matthías Matthíasson, framkvæmdastjóri Flutningasviðs Eimskips segir siglingakerfi félagsins hafa verið hryggjarstykkið í þjónustu félagsins fyrir inn- og útflutning. „Þessar breytingar á siglingakerfi Eimskips miða að því að styrkja kerfið í heild sinni, ásamt því að viðhalda okkar yfirburða þjónustustigi. Flutningaþarfir viðskiptavina okkar taka sífelldum breytingum og mikilvægt að við aðlögumst þörfum markaðarins á hverjum tíma. Á meðan makrílvertíð stóð í haust vorum við t.d. með tímabundnar siglingar til Gdynia í Póllandi og Klaipeda í Litháen, sem mæltust vel fyrir á markaði. Fyrirhugaðar breytingar á siglingarkerfinu stytta afhendingartíma fyrir útflytjendur inn á helstu markaði í Evrópu án þess þó að skerða þjónustu í innflutningi," segir Matthías.