Eimskipafélagið hefur gengið frá kaupum á þremur lóðum á iðnaðar- og hafnarsvæðinu við Grundartanga og hefur fjárfest í tveimur hafnarkrönum sem verða stærstu hafnarkranar á Íslandi. Heildarfjárfesting Eimskips í þessum verkefnum er um 8 milljónir evra eða um 1,2 milljarða króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að lóðirnar séu samtals 22.410 fermetrar. Samhliða lóðakaupunum hefur félagið fest kaup á tveimur nýjum hafnarkrönum af gerðinni TREX Gottwald GHMK 6507. Annar kraninn verður staðsettur á Grundartanga þar sem hann mun m.a. þjónusta álver Norðuráls. Hinn kraninn verður hins vegar staðsettur á Mjóeyrarhöfn þar sem hann leysir eldri krana af hólmi, en sá krani fer til Reykjavíkur þar sem hann leysir Jakann af í Sundahöfn á meðan hann fer í reglulegt viðhald og verður síðan sendur til Færeyja til að mæta auknum umsvifum þar. Kranarnir verða stærstu hafnarkranar á Íslandi og er sérstaða þeirra sú að þeir geta lyft tveimur 20 feta gámum samtímis.

Kranar Eimskipa
Kranar Eimskipa
© Aðsend mynd (AÐSEND)