Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,04% í 545 milljóna viðskiptum dagsins í dag. Gengi bréfa Eimskipafélagsins hækkaði mest, eða um 4,75% í 158 milljóna viðskiptum dagins, og standa bréf félagsins nú í 209,50 krónum.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gærkvöldi hefur Gylfi Sigfússon ákveðið að stíga niður sem forstjóri fyrirtækisins, en hann heldur þó áfram hjá því og tekur á ný við daglegum rekstri fyrirtækisins í Bandaríkjunum og Kanada.

Einu öðru fyrirtækin sem hækkuðu voru HB Grandi sem hækkaði um 1,26%, upp í 32,20 krónur, í þó mjög litlum viðskiptum og svo Icelandair sem hækkaði um 0,67% í 10 milljón króna viðskiptum. Er gengi flugfélagsins nú komið í 12,08 krónur hvert bréf, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa bréf félagsins hækkað um helming frá því tilkynnt var um kaup þess á Wow air.

Mest lækkun var á gengi bréfa Sjóvá, eða um 1,62% í 29 milljón króna viðskiptum og fór gengið niður í 14,59 krónur. Félagið gaf út afkomuviðvörun í gærkvöldi vegna brunans í Hafnarfirði . Næst mesta lækkunin var á gengi bréfa Heimavalla, eða um 0,92% í 77 milljóna viðskiptum og er lokagengi bréfa félagsins nú 1,08 krónur.