Hagnaður Eimskipa nam 16,8 milljónum evra á árinu 2017 sem samsvarar um 2,1 milljarði króna samanborið við 21,9 milljóna evra hagnað árið áður. Það er rétt um 23% lækkun milli ára. Eimskip segja í tilkynningu að árið 2017 hafi verið ár vaxtar hjá félaginu en segir að samdráttur í hagnaði skýrist að mestu vegna neikvæðrar breytingar á gengismun milli ára að fjárhæð 5,8 milljón evra.

Tekjur Eimskipa jukust um 29,2% á milli ára og námu 664 milljónum evra. Rekstrargjöld jukust hins vegar einnig mikið eða 31,8%.

Á fjórða ársfjórðungi hagnaðist félagið um 2.885 milljónir evra sem er aukning frá sama tíma á fyrra þegar hagnaður síðasta fjórðungsins nam 1.914 milljónum evra.

Þegar litið er til efnahagsreikningssings má sjá að eiginfjárhlutfall er að minnka á milli ára en í lok árs 2017 nam það 53,2% samanborið við 62,2% í lok árs 2016. Eignir félagsins námu í heildina 460 milljónum evra og skuldir 215 milljónum.

Þá dróst handbært fé einnig saman en í lok árs nam það rúmum 23 milljónum evra samanborið við tæplega 40 milljónir evra í lok árs 2016. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 25 milljónir evra en það var jafnframt stærsti einstaki sjóðsstreymisliðurinn.