Eimskip hefur ákveðið að hefja siglingar til Bremerhaven í Þýskalandi frá og með 6. desember næstkomandi. Félagið mun á sama tíma hætta siglingum til Hamborgar þar sem það hefur haft viðkomur allt frá árinu 1926. Þetta er liður í uppbyggingu á siglingakerfi félagsins, en með breytingunni komast viðskiptavinir félagsins í betri tengingar við aðra markaði og siglingatíminn styttist, auk þess sem vagga sjávarútvegs í Þýskalandi er á svæðinu í kringum Bremerhaven.

Síðustu árin hafa skip félagsins, Dettifoss og Goðafoss, haft viðkomur í Hamborg á bláu leiðinni. Miklar breytingar eru fyrirhugaðar á hafnarsvæðinu í Hamborg og verður svæðinu sem Eimskip hefur notað lokað. Það er því góður tímapunktur að flytja viðkomuhöfnina um set núna, auk þess sem það mun styrkja siglingakerfi félagsins. Síðasta viðkoma Goðafoss í Hamborg er áætluð 29. nóvember.

Flutningurinn til EUROGATE Container Terminal Bremerhaven er mikilvægt skref til að efla þjónustu við viðskiptavini Eimskips. Höfnin hefur yfir að ráða tæknivæddu hafnarsvæði sem auka mun áreiðanleika og hagkvæmni þjónustunnar. Gámahöfnin í Bremerhaven er sú fjórða stærsta í Evrópu og er mikilvæg umskipunarhöfn. Tengimöguleikar við Asíu, Afríku og Suður- og Norður-Ameríku eru einnig framúrskarandi, ásamt því að vöruhúsastarfsemi fyrir kældar og frystar vörur er á hafnarbakkanum sem eykur enn frekar þjónustu við sjávarútveginn.

Aðalskrifstofa Eimskips í Þýskalandi verður áfram í Hambor