Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,14% í 1,9 milljarða viðskiptum dagsins og stendur hún nú í 1,889,84 stigum.

Mest hækkun var á gengi bréfa Arion banka, eða 2,70% í 76 milljóna viðskiptum, og fór gengið upp í 79,90 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Origo, eða um 1,66% og fór gengið upp í 21,40 krónur, í þó ekki nema 13 milljóna króna viðskiptum.

Langmestu viðskiptin voru eftir sem áður með bréf Marel, eða fyrir 736 milljónir króna en bréf félagsins hækkuðu um 0,59%, í 513,00 krónur.

Mest lækkun var á gengi bréfa Eimskipafélagsins, eða 3,30%, í 176,0 krónur en viðskiptin með bréf félagsins námu 58 milljónum króna. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur yfirskattanefnd gert félaginu að greiða sem samsvarar 454 milljónum króna meira í skatt en félagið taldi réttmætt. Í kjölfarið hefur a.m.k. einn lífeyrissjóður aukið við hlut sinn í félaginu.

Næst mest lækkun var á gengi bréfa Sjóvá, eða um 2,09% í 152 milljóna viðskiptum, og fór gengi bréfanna niður í 16,40 krónur.